Fast and Furious 8

 Búið ykkur undir Fast and Furious 8!!!! Reglurnar hafa breyst  Já, reglurnar hafa sannarlega breyst í þessari áttundu mynd Fast and Furious-seríunnar þegar aðalmaður þeirra og höfuð „fjölskyldunnar“, Dominic Toretto, svíkur bæði félaga sína og eiginkonu og gengur í lið með hátæknisérfræðingnum og glæpadrottningunni Cipher. Hvað Dominic gengur til með þessu veit enginn og spurningin er hvort hann viti það sjálfur! Ef einhvern tíma er óhætt að lofa áhorfendum hasar þá er það þegar ný Fast and Furious-mynd er frumsýnd og það er ljóst að áttunda mynd seríunnar verður engin undantekning frá þeirri reglu. Í þetta sinn stendur hasarinn reyndar nær Íslendingum en áður því eins og flestir vita er eitt af aðalatriðum myndarinnar tekið upp hér á landi og er plakatið hér til vinstri einmitt úr því atriði. Sem fyrr eru bílar og alls kyns önnur kraftmikil farartæki fyrirferðarmikil í sögunni og ef mið er tekið af stiklunum sem gerðar hafa verið úr myndinni þá hafa þau farartæki sennilega aldrei verið jafn fyrirferðarmikil og núna. Um söguna sjálfa segjum við ekki meira enda vitum við ekki frekar en aðrir hvað Dominic gengur til með svikum sínum né til hvaða ráða fyrrverandi félagar hans grípa. Það kemur ekki í ljós fyrr en á frumsýningardeginum 12. apríl.




Ummæli